„Þurfum við endilega að hætta núna?”
– Nemandi í 2. bekk

Hvað eru Teningasögur?
Teningasögur er hlutverkaspil sem er ætlað nemendum á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Í grunninn er spilið hlutverkaleikur sem byggir á sögum, spuna og borðspilum. Með Teningasögum getur sögustjóri tekið leikmenn með sér í hugarflug um ímyndaða heima þar sem þarf að leysa raunveruleg vandamál. Teningasögur bjóða upp á mikla möguleika fyrir fagaðila í skólum með fámenna nemendahópa en eru líka tilvaldar fyrir fjölskyldur.
Af hverju Teningasögur?
Hvers vegna ættu fagaðilar í skólum eða fjölskyldur að velja Teningasögur?
Teningasögur veita leikmönnum tækifæri til að kanna raunveruleg vandamál í ímynduðum heimi í samvinnu við aðra. Þeir læra að gjörðir þeirra geta haft afleiðingar á heiminn í kringum þá. Þátttakendur í spilinu geta myndað ný vináttutengsl í gegnum sameiginlega reynslu á meðan þeir þjálfa mikilvæga færni sem mun nýtast þeim um ókomin ár. Spilið virkar með breiðu aldursbili og þurfa leikmenn ekki að vera á sama aldri til að spila saman.
Teningasögur eru frábært tæki til að ýta undir málþroska og efla orðaforða sem er grundvöllur góðs lesskilnings. Þrautalausnir og samræður í tengslum við rými stuðla að bættu talnalæsi og hugtakaskilningi. Teningaköstin efla einnig hugarreikning. Fagaðilar í skólum geta notað spilið til að ná til mjög fjölbreyttra einstaklinga og um leið bætt viðhorf þeirra til skólans. Hægt er að tengja Teningasögur við alla grunnþætti menntunar sem birtust í Aðalnámskrá grunnskóla 2013. Allt þetta gerist á meðan nemendur skemmta sér í hlutverki söguhetja og þar liggur galdurinn.
Eftir lesturinn getur hópurinn þinn byrjað á sinni eigin sögu með lítið annað en teninga og ímyndunaraflið að vopni!


Óvenjuleg beiðni konungs er sögurammi sem gerist í konungsríki í ævintýraheimi á miðöldum. Tilvalinn sögurammi fyrir sögustjóra sem eru að taka sín fyrstu skref.
Flóttinn úr Fitjahelli er sögurammi sem gerist í drungalegum helli. Prófaðu með þínum hópi og sjáið hvert ævintýrið tekur ykkur.

Hafa samband
Um síðu
Höfundur Teningasagna er Hörður Arnarson, umsjónarkennari á yngsta stigi. Vorið 2017 lauk hann B.Ed námi í grunnskólakennslu með áherslu á kennslu ungra barna við Menntavísindasvið HÍ. Hugmyndin að Teningasögum varð til árið 2015, í starfi með börnum á frístundaheimili með kennaranáminu. Spilið naut strax mikilla vinsælda og þegar kom að vali á B.Ed lokaverkefni var ekki um annað að ræða en að þróa þessa hugmynd áfram. Þannig varð fyrsta útgáfa spilsins, sem og þessi vefsíða, til. Haustið 2018 var ákveðið var að gera Teningasögur að aðalviðfangsefni rannsóknar til M.Ed gráðu í grunnskólakennslu yngri barna. Töluverðar breytingar urðu á vefsíðunni og spilinu sjálfu á meðan rannsókninni stóð. Hún ber heitið „Þurfum við endilega að hætta núna? – Prófun og endurhönnun hlutverkaspilsins ‚Teningasögur‘ “.
Athugið að vefsíðan og innihald hennar geta breyst án fyrirvara.